Sunday, September 28, 2008

Mamma mia - ótrúleg upplifun.


Mér áskotnaðist boðsmiði á kvikmyndina Mamma mia sem byggð er samnefndum söngleik, líkt og flestir vita. Hér var þó ekki um að ræða neina venjulega sýningu heldur einhverskonar söngsýningu, þar sem áhorfendur eru hvattir til að syngja með og er textunum varpað á tjaldið líkt og um karaoke væri að ræða. Sýningar þessar hafa notið gríðarlegra vinsælda og ég var því mjög spenntur þegar ég gekk inn í Stóra-sal Háskólabíós. 

Áður en sýningin byrjaði sungu þær Selma Björnsdóttir og hin konan, sem ég man ekki hvað heitir, nokkur vel valin ABBA lög. Atriðið féll vægast sagt vel í kramið hjá áhorfendaskaranum sem samanstóð mestmegnis af miðaldra kvenfólki. Það má segja að atriðið
hafi sett tóninn fyrir það sem koma skyldi því stemningin var gríðarleg strax í byrjun.
 

                      ,,Ha, ha, ha...Ég gæti verið amma þín.''

Myndin fjallar um Sophie (Amanda Seyfried) sem býr með móður sinni Donnu (Meryl Streep) sem rekur hótel á lítilli grískri eyju. Sophie hefur aldrei haft hugmynd um hver faðir hennar er fyrr en hún finnur gamla dagbók mömmu sinnar. Með henni finnur hún þrjá hugsanlega feður sína; Sam Carmichael (Pierce Brosnan), Harry Bright (Colin Firth) og hinn ævintyragjarna Bill Andersson (Stellan Skarsgaard). Sophie býður þeim öllum í brúðkaupið sitt í því skyni að komast að hinu rétta og kemur af stað æsilegri atburðarás þar sem persónurnar bresta í söng hver af annari, hvað eftir annað, alla myndina.
  
                                  Afar heillandi maður.  

Líkt og kom fram áðan var stemningin í salnum frábær frá upphafi. Fólk söng hástöfum og sumir jafnvel stóður upp og dilluðu sér. Ég sat á mér hvað það varðaði, fyrst um sinn, ég ætlaði ekki að taka þátt í þessum skrípaleik. En andrúmsloftið var bráðsmitandi og þegar Sophie söng lagið honey honey gat ég ekki lengur haldið aftur af mér. Eftir þetta var ég meira en minna klappandi, syngjandi og dansandi. Í lok myndarinnar vorum við félagarnir komnir upp á svið fyrir framan þúsund manns, uppátæki sem ég svona hálfpartinn sé eftir núna.
 
Ég er nú ekki vanur að syngja í margmenni og því síður að dansa en þetta kvöld gerði ég hvorutveggja. Myndin var sjálf stórskemmtileg þótt hún væri ekkert sérlega vel leikinn og Pierce Brosnan ætti aldrei að komast nálægt míkrófón. En ég hefði aldrei haft jafn gaman af henni á venjulegri sýningu. Salurinn var sem eitt og fagnaði Brosnan líkt og íþróttahetju í hvert sinn sem hann opnaði munninn. 
  
Ég skemmti mér konunglega á þessari sýningu og mæli með henni fyrir alla.

2 comments:

birta said...

hahaha þetta var svo mikil epík. ég mun aldrei láta þig gleyma því, kristján bjarni, að þú hafir dansað uppá sviði við ABBA lög fyrir fullum sal.

Siggi Palli said...

Bráðskemmtileg færsla. Ég gæti næstum hugsað mér að fara á þessa sýningu. Næstum. 5 stig.